Aðalmeðferð í máli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra gegn Seðlabanka Íslands fer fram 24. september nk. Þetta var ákveðið við fyrirtöku fyrr í dag. Ekki er gert ráð fyrir að Már komi fyrir dóminn.
Már var skipaður í embætti í lok júní 2009 og tók við störfum í ágústmánuði sama ár. Á sama tíma samþykkti Alþingi lög sem felldu ákvörðun um laun seðlabankastjóra undir Kjararáð, og að dagvinnukaup mætti ekki vera hærra en föst laun forsætisráðherra.
Laun Más voru við ráðningu tæpar 1,6 milljónir króna en fóru niður í tæpar 1,3 milljónir króna þegar Kjararáð skerti laun hans. Már höfðaði mál á hendur Seðlabankanum vegna þess að úrskurður Kjararáðs tók þegar gildi en ekki að loknum skipunartíma hans, sem er til fimm ára.
Seðlabankinn fór fram á það í mars sl. að málinu yrði vísað frá en héraðsdómari hafnaði þeirri kröfu mánuði síðar.
Við fyrirtökuna í dag var upplýst um að nýr dómari hefði tekið við málinu. Gert hafði verið ráð fyrir að aðalmeðferðin færi fram 14. september nk. en sökum þessa var henni seinkað.
Þá var rætt um hvort Már myndi gefa aðilaskýrslu við aðalmeðferðina en lögmaður Seðlabankans sagðist enga áskorun um það. Málið snúi fyrst og fremst um túlkun á lagaatriðum.
Sökum þess er ekki gert ráð fyrir að aðalmeðferðin taki nema hálfan dag og fari fram, eins og áður segir, 24. september nk. að öllu óbreyttu.