Ná engum manni á þing

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með þrjátíu og sex prósenta fylgi í nýjum …
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með þrjátíu og sex prósenta fylgi í nýjum þjóðarpúlsi Gallup mbl.is/Ómar Óskarsson

Fylgi Framsóknarflokksins og Vinstri grænna eykst lítillega en fylgi Sjálfstæðisflokksins dalar aðeins frá fyrri mánuði, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallups. Ekkert nýju framboðanna fjögurra nær manni á þing. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með þrjátíu og sex prósenta fylgi. Það er lækkun um eitt prósentustig frá síðasta mánuði en nærri helmingi meira en flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Samfylkingin stendur í stað, með tuttugu og eins prósents fylgi en var með þrjátíu prósent í síðustu kosningum. Vinstri græn bæta við sig rúmu prósentustigi frá síðasta mánuði og fá nú ríflega þrettán prósent.

Framsókn með tæp 14 prósent

Framsóknarflokkurinn bætir við sig einu og hálfu prósentustigi en flokkurinn mælist nú með nærri fjórtán prósenta fylgi. Nýju framboðin fjögur, Björt framtíð, Dögun, Hægri grænir og Samstaða mælast með töluvert minna fylgi og ekkert þeirra nær þeim fimm prósentustigum sem þarf til að koma manni á þing. Björt framtíð Guðmundar Steingrímssonar og Heiðu Kristínar Helgadóttur var með rétt ríflega fimm prósent í síðasta mánuði en mælist nú með fjögur og hálft prósent. Dögun dalar og fær tæp fjögur prósent. Samstaða Lilju Mósesdóttur fær þrjú prósent eða nákvæmlega jafnmikið og Hægri grænir. Samtals fá smáflokkar sextán prósenta fylgi. Þeir flokkar sem ekki ná fimm prósenta fylgi ná tæpast mönnum á þing. Líklegt er að þau atkvæði nýtist ekki við skiptingu þingmanna og fjórflokkurinn fái því hlutfallslega fleiri menn á þing.

Fylgi ríkisstjórnarinnar mælist nú 34 prósent

Fylgi við ríkisstjórnina eykst fjórða mánuðinn í röð en nú segjast þrjátíu og fjögur prósent styðja hana. Liðlega fjórtán prósent svarenda taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og rúmlega þrettán prósent segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka