„Það er alveg skýrt að ég sem forstjóri stofnunar hef ekki heimild til að gera þetta. Það er stundum sagt að nauðsyn brjóti lög. Við lentum í erfiðri stöðu sem við þurftum að príla út úr og ég sá mér ekki aðra leið færa,“ segir Einar Rafn Haraldsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands en stofnunin skuldar 82 milljónir króna í yfirdráttarlán þrátt fyrir að ólöglegt sé að að fjármagna reksturinn með slíkum lánum.
Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að áhyggjuefni sé hversu illa heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni hefur gengið að halda rekstri sínum innan þess ramma sem Alþingi setur.
Einar Rafn segist sáttur við skýrslu Ríkisendurskoðunar. Hún hafi gert úttekt á stofnuninni árið 2009 sem hafi gert HSA margt gott. Reynt hafi verið að bregðast við því sem þá var bent á og bæta það sem var mögulegt.
Hann segir að samverkandi þættir hafi orðið til þess að stofnunin lenti í þeirri stöðu að þurfa að taka yfirdráttarlán hjá banka. Annars vegar hafi langvarandi veikindi nokkurra starfsmanna sett ófyrirséð strik í reikninginn og þurft hafi að ráða fólk í staðinn. Þá hafi eigin tekjur HSA orðið minni en vænst hafði verið og þær hafi dregist saman um 20% frá 2008.
Búið hafið verið að reyna til fullnustu að fá aukafjárveitingar en forstjórinn segir að ekki hafi verið til meira í kassanum hjá ráðuneytinu. Þá hafi ekki verið hægt að skera niður meira í rekstrinum. Þjónustan sé stór og dreifð yfir mikið landssvæði.
„Þetta er ekki eins og á sjúkrahúsi þar sem er hægt að loka hálfri deild. Við gerum út læknavaktir og sjúkrabíla með um 330 starfsmenn. Það er ekki hægt að bregðast snöggt við þó að upp á komi einhverjir skellir í rekstrinum,“ segir Einar Rafn.
Ekki hafi verið hægt að fá endalaust lánað hjá birgjum. Stofnunin hafi þurft að borga fyrir orku, mat og lyf og því hafi verið nauðsynlegt að taka peninga að láni til að geta staðið í skilum og haldið rekstrinum gangandi.
„Þetta er bara neyðarúrræði og ekki leyfilegt en þannig er þetta. Við höfðum enga aðra kosti í stöðunni. Þetta er ekki óskastaða,“ segir Einar Rafn.