Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn vilja að borgarstjórn Reykjavíkur beiti sér fyrir stofnun sérstaks öldungaráðs í Reykjavík. Tillaga þess efnis verður lögð fram á borgarstjórnarfundi í dag.
„Þetta er hugsað sem formlegur vettvangur fyrir eldri borgara, vettvangur fyrir þá til að fjalla um þjónustu borgarinnar er snýr sérstaklega að þeim ásamt málum sem snúa að almenningi og þar með eldri borgurum. Öldungaráðið yrði borgarstjórn til ráðgjafar varðandi þjónustu og uppbyggingu í málaflokknum.“
Þetta segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og einn flutningsmanna tillögunnar í Morgunblaðinu í dag. Í greinargerð segir að gert sé ráð fyrir að öldungaráðið verði skipað eldri borgurum og hafi víðtækt samráð við félög og samtök eldri borgara í Reykjavík.