Skaflinn í Gunnlaugsskarði Esjunnar virðist hafa bráðnað með öllu í sumar. Hefur hann þá horfið á hverju ári frá 2001, nema í fyrra, sumarið 2011, að sögn Páls Bergþórssonar veðurfræðings.
Reglulega hefur verið fylgst með skaflinum í Gunnlaugsskarði, sem er vestan í Kistufelli Esju, allt frá árinu 1909 og raunar benda heimildir til þess að skaflinn hafi ekki horfið í áratugi fyrir árið 1929, að minnsta kosti frá 1863, samkvæmt samantekt Páls um fannir í Esjunni á vef Veðurstofu Íslands.
Enn fannir í Kerhólakambi
Skaflinn, sem er í um 820 metra hæð yfir sjó, bráðnar alfarið í hlýjum árum áður en snjór tekur að safnast þar fyrir aftur að hausti, en á köldum tímabilum helst hann allt árið. Að sögn Páls hvarf skaflinn yfirleitt ekki fram undir aldamót, en á 10 ára tímabili frá 2000-2010 hvarf hann á hverju sumri. Í fyrra, sumarið 2011, bráðnaði hann hins vegar ekki alveg.
Páll segir nú frá því á Facebook síðu sinni að líkt og hann sjálfur hafi Sigurjón Einarsson flugmaður lengi fylgst með Esjufönnum. Þeim tveimur ber nú saman um það að í kíki sé ekki hægt að sjá skaflinn. „þetta er í mjög góðu samræmi við hlýnunina sem hófst um aldamótin,“ segir Páll. Hins vegar bendir hann á að á sama tíma er örlítill skafl ennþá í Kerhólakambi, vestast í háenni Esjunnar. „Það hefur ekki gerst áður svo við vitum, að hann hafi enst lengur.“