Stjórn sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum telur að aðaleigandi Bergs-Hugins hafi átt að bjóða heimamönnum fyrirtækið áður en það var selt til Síldarvinnslunnar. Störfum fjörutíu sjómanna í Vestmannaeyjum sé stefnt í mikla óvissu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun stjórnar Jötuns. Stjórnin styður ákvörðun bæjarráðs í Vestmannaeyjum um að kanna með forkaupsréttarákvæði laga um stjórn fiskveiða.
Þar kemur einnig fram að það að hafa mannaforráð sé ábyrgðarstaða og þegar menn séu á þeim stað verði þeir að sýna samfélags- og siðferðilega ábyrgð og standa með sínu fólki og reyna með öllum ráðum að tryggja afkomu þess til framtíðar.