Meirihluti Besta flokks og Samfylkingar vísaði tillögu Sjálfstæðisflokksins um mótmæli vegna fyrirhugaðrar skattahækkana á ferðaþjónustu frá á borgarstjórnarfundi í dag.
Segir borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins að með þessu bregðist meirihlutinn algerlega þessari vaxandi atvinnugrein sem fjöldi borgarbúa hefur lífsviðurværi sitt af.
Samkvæmt skýrslu KPMG gætu 40 þúsund ferðamenn hætt við að koma til Íslands
„Í Reykjavíkurborg eru staðsett flest hótel og gistihús landsins og fjölmörg fyrirtæki byggja afkomu sína á annars konar þjónustu við ferðamenn. Áhugi á uppbyggingu nýrra hótelrýma hefur gefið góða von og endurspeglað trú á bjarta framtíð greinarinnar en hækkun virðisaukaskatts á gistingu setur slík áform í uppnám.
Hótel og gistihús starfa í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og hafa takmarkað svigrúm til þess að fleyta hækkunum sem þessum út í verðlagið. Samkvæmt útreikningum KPMG mun fyrirhuguð hækkun bitna sérstaklega illa á ferðaþjónustuaðilum í Reykjavík, þurrka út þá framlegð sem nú er á rekstrinum og valda miklum taprekstri í greininni. Afleiðingar þess verða uppsagnir starfsfólks, hækkun á leiguverði, fækkun rekstraraðila og meiri hætta á undanslætti í greininni. Auk þess má gera ráð fyrir að ferðamönnum fækki um allt að 40.000 á ári sem þýða minni tekjur fyrir rekstraraðila og ríkissjóð,“ segir í fréttatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.
„Það gengur ekki að þeir borgarfulltrúar sem skipa meirihlutann í Reykjavík fyllist valkvíða þegar kemur að því að standa vörð um mikla hagsmuni borgarbúa og atvinnulífisins í Reykjavík. Hér er augljóslega verið að hlífa ríkisstjórninni í stað þess að gegna því hlutverki sem þeir eru kjörnir til - að gæta hagsmuna borgarbúa. Meirihluti borgarstjórnar stendur ekki með þeim fjölda fólks sem hefur atvinnu af ferðaþjónustunni og það er miður,“ er haft eftir Júlíusi Vífli Ingvarssyni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í tilkynningunni.