Dorrit heiðursgestur í Ísrael

Dorrit Moussaieff forsetafrú Íslands var heiðursgestur á landsleik Ísraels og Íslands í undankeppni Evrópumeistaramótsins í körfubolta í kvöld. Leikurinn fór fram í Tel Aviv í Ísrael, en Dorritt er sem kunnugt er fædd í Jerúsalem og tengist því báðum þjóðum sterkum böndum þótt hún hafi lengst af búið í Bretlandi.

Stuðningur Dorritar við landsliðið í handknattleik hefur oft vakið athygli en í þetta sinn lætur hún sig körfuboltann varða. Fram kemur á vef Körfuknattleikssambands Íslands að sem heiðursgestur hafi Dorrit heilsað formlega upp á leikmenn beggja liða fyrir leikinn, í fylgd Avner Kopel, formanns ísraelska körfuknattleikssambandsins, og Hannesar S. Jónssonar, formanns KKÍ.

Nærvera forsetafrúarinnar dugði þó því miður ekki til að tryggja sigur íslenska liðsins, sem tapaði fyrir Ísrael, 75:92. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka