Fyrst og fremst til marks um mikla óvissu

Gunnar Helgi Kristinsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands.
Gunnar Helgi Kristinsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta eru góðar fréttir fyrir þetta hefðbundna flokkakerfi en sýnir hins vegar kannski að nýju framboðin dreifa kröftum sínum um of til þess að ná nægum árangri. Ekkert þeirra hefur afgerandi forystu og sennilega hafa þau einfaldlega ekki nógu skýran prófíl hvert um sig. Ég hugsa að mikið af fólki rugli þeim hreinlega saman og nöfnin eru líklega ekki heldur mjög hjálpleg.“

Þetta segir Gunnar Helgi Kristinsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, spurður út í nýjasta þjóðarpúls Capacents Gallup á fylgi stjórnmálaflokkanna en samkvæmt honum er staða stóru flokkanna nokkuð svipuð á milli mánaða en ekkert af nýju framboðunum nær hins vegar nægu fylgi til þess að ná manni á þing en til þess þarf sem kunnugt er að lágmarki 5% fylgi.

„Það er hins vegar ekki mikil breyting hjá stóru flokkunum í nýjustu könnuninni. Ríkisstjórnin stendur ekki vel en er hins vegar ekki á neinni niðurleið í sjálfu sér. Sjálfstæðisflokkurinn stendur vel en ekki kannski jafn vel og mætti búast við miðað við það erfiða stjórnarfar sem við höfum búið við og hann í stjórnarandstöðu allan tímann. Hann er fyrir vikið kannski ekki að vinna nægjanlega mikið nýtt land eins og hann þyrfti að gera ef hann ætlar að verða sannfærandi sigurvegari í næstu kosningum,“ segir hann.

Gunnar Helgi segir að niðurstöður þjóðarpúlsins séu þannig fyrst og fremst til marks um ákveðna óvissu. Hugsanlega gæti það gerst að eitthvert af nýju framboðunum tæki afgerandi forystu og næði hliðstæðri stöðu og Besti flokkurinn gerði í síðustu borgarstjórnarkosningum í Reykjavík. Enn sé hins vegar fyrir að fara verulegu óánægjufylgi sem þau framboð sem þegar eru í boði virðast ekki höfða til.

„Þannig að í raun og veru myndi ég segja að þetta væri fyrst og fremst ávísun á mjög opinn kosningavetur og mikla óvissu. Líklega er þessi niðurstaða þjóðarpúlsins eitthvað sem allir eru óánægðir með,“ segir hann.

Fylgi stjórnmálaflokkanna í þjóðarpúlsi Capacents Gallup í september 2012.
Fylgi stjórnmálaflokkanna í þjóðarpúlsi Capacents Gallup í september 2012. mbl.is/Elín Esther Magnúsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert