Munnlegur flutningur í Icesave-málinu fer fram fyrir EFTA-dómstólnum 18. september næstkomandi í Lúxemburg og hefst hann klukkan 10:00 að staðartíma. Þetta var í dag staðfest af dómstólnum.
Umrædd dagsetning hefur legið fyrir undanfarna mánuði en hún hefur hins vegar ekki verið staðfest af EFTA-dómstólnum fyrr en nú. Skriflegum málflutningi lauk fyrr á árinu en búist er við að niðurstaða í málinu gæti legið fyrir í byrjun næsta árs.
Eins og kunnugt er er málið höfðað af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gegn íslenska ríkinu og er þess krafist að dómstóllinn staðfesti meint brot Íslands gegn tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar með því að hafa ekki í kjölfar bankahrunsins bætt innistæður í Icesave-netbankanum, sem Landsbanki Íslands hélt úti í Hollandi og Bretlandi, sem nemur lágmarkstryggingu.
Þá hefur ESA einnig sakað íslenska ríkið um að hafa brotið gegn ákvæðum EES-samningsins um bann við mismunun eftir þjóðerni með því að hafa ábyrgst innistæður á Íslandi að fullu en ekki á Icesave-reikningunum.
Íslensk stjórnvöld hafa hafnað því að hafa borið skylda til þess að bæta Icesave-innistæðurnar og ennfremur að innistæðueigendum hafi verið mismunað.