Segir Sjálfstæðisflokkinn ekki ná vopnum sínum

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sat lengi á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sat lengi á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. mbl.is/Frikki

„Staðan á stjórnarheimilinu versnar jafnt og þétt, engu að síður aukast vinsældir hennar [ríkisstjórnarinnar] í könnunum, nú styðja hana 34%,“ segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á heimasíðu sinni um nýjasta þjóðarpúls Capacents Gallup um fylgi flokkanna. Hann bætir því við að í sömu könnun komi fram að fylgi Sjálfstæðisflokksins dragist saman.

„Hið undarlega er að þingmönnum flokksins tekst ekki að ná þeim vopnum sem þeim eru rétt á hverjum degi til að berja á ríkisstjórninni. Þá var kjörinn sérstakur varaformaður flokksins síðla síðasta vetrar með það sem höfuðverkefni að blása lífi í starf hans,“ segir Björn og vísar til kjörs Kristjáns Þórs Júlíussonar alþingismanns sem 2. varaformanns flokksins.

„Skyldi nýr þingflokksformaður hleypa nýju lífi í stjórnmálabaráttu flokksins? Ragnheiður Elín átti góða spretti og lét ekki stjórnarsinna vaða yfir sig sem þingflokksformann,“ segir hann ennfremur og skírskotar þar til þeirrar ákvörðunar þingflokks Sjálfstæðisflokksins í gær að Illugi Gunnarsson alþingismaður tæki við sem þingflokksformaður af Ragnheiði Elínu Árnadóttur.

Heimasíða Björns Bjarnasonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert