Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, segist hafa skipt um skoðun varðandi byggingu nýs spítala við Hringbraut. Hún skorar á þá sem ráða málum að hætta við þessa framkvæmd.
Þetta kemur fram í facebookfærslu frá Steinunni. Skipulagsyfirvöld í Reykjavik á árunum fyrir 2002, áður en skýrsla um framkvæmdina kom út, fögnuðu þessum áformum á sínum tíma m.a. vegna nálægðar við Háskóla Íslands, eflingar miðborgar o.fl.
„Mér er hins vegar ljúft og skylt að upplýsa að ég hef skipt um skoðun enda forsendur breyttar og fólk á að geta viðurkennt að það hafi á einhverjum tíma haft rangt fyrir sér. Ég skora hér með á þá sem ráða málum nú að hætta við þetta, það er aldrei of seint! Svo verð ég nú að segja að mér finnast borgaryfirvöld seilast nokkuð langt með að segja að þeir sem ekki gera athugasemdir séu þar með búnir að samþykkja tillögurnar,“ segir Steinunn og vísar til þess sem segir í tilkynningu frá borginni: „Þeir sem eigi gera athugasemdir innan tilskilins frests teljast samþykkja tillögurnar.“
Steinunn er á Fésbók spurð hvaða forsendur hafi breyst. „Því miður er staðsetning þessa spítala líkt og trúarbrögð hjá mörgum og þau trúarbrögð byggjast á nálægð við HÍ og miðborgina. Þegar ákvörðun var tekin var m.a. talað um að það væri góð forsenda fyrir uppbyggingu miðborgar því þangað vantaði fólk, atvinnutækifæri og mannlíf. Þá var Laugavegurinn að hopa sem verslunargata, fyrirtæki önnur að hverfa og menn töldu að innspýting fólks á svæðið myndi gæða miðborgina lífi. Fólk færi að versla eftir vinnu etc. Á þessum ríflega 12 árum síðan þessi umræða var í algleymi hefur mikið breyst og miðborgin og þetta svæði tekið miklum breytingum - nú ef eitthvað er hafa menn áhyggjur af flæði fólks og umferðar vestur í borgina. Einnig má nefna forsenduna um mikilvægi nálægðar við HÍ sem margir efast um að skipti öllu máli í dag. Forsendur hafa líka breyst varðandi stærð og magn og þegar maður sér teikningarnar í plani á svæðinu þá er þetta yfirgengilega mikið. Vissulega er búið að setja í þetta fjármuni og það er ekki eitthvað sem er tekið aftur. Fyrst og fremst er það þó kostnaður við vinnu hönnuða, arkitekta og sérfræðinga en engin steypa enn. Svo eru það fjárhagsforsendur! Hver á að fjármagna dæmið árið 2013? Lífeyrissjóðirnir? Mikilvægi góðrar aðstöðu fyrir starfsfólk er seint ofmetið en starfskjör, tækjakostur og vinnuálag eru líka þættir sem skipta máli, eins og margt starfsfólk geirans hefur bent á.“
Steinunn sagði aðspurð í samtali við mbl.is að hún hefði engu við þessi orð að bæta.