Málefni tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu voru meðal þess sem rætt var á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur sem fram fór í gærkvöldi að frumkvæði Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Gagnrýndi Kjartan meðal annars harðlega vinnubrögð stjórnar Austurhafnar, rekstraraðila Hörpu, og ákveðna embættismenn borgarinnar fyrir að hafa neitað honum um rekstrarúttekt KPMG vegna hússins frá 31. maí síðastliðnum og þannig haldið mikilvægum upplýsingum frá kjörnum fulltrúa.
Í bókun Kjartans vegna málsins segir að með ólíkindum sé að stjórn Austurhafnar, sem sé að fullu í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar, hafi ákveðið að halda mikilvægum upplýsingum um fjárhag Hörpu frá kjörnum fulltrúum. „Ekki er síður ámælisvert að stjórnarmenn, skipaðir af Reykjavíkurborg skuli taka fullan þátt í því með þessum hætti að halda umræddum upplýsingum frá kjörnum borgarfulltrúa.“
Jafnframt lagði Kjartan fram fimm fyrirspurnir í borgarstjórn varðandi fjárhag Hörpu og þau vinnubrögð sem stunduð hafa verið í tengslum við húsið. Þar er óskað eftir upplýsingum um heildarbyggingarkostnað við Hörpu og tengd mannvirki á núverandi verðlagi og hvort borgarstjóri eða staðgengill hans hafi komið að þeirri ákvörðun að halda áðurnefndum upplýsingum frá kjörnum borgarfulltrúa eða hún borin undir hann.
Þá er minnt á að 3. nóvember 2011 hafi verið ákveðið í borgarráði Reykjavíkur að farið yrði strax í einföldun á stjórnarfyrirkomulagi þeirra félaga sem kæmu að rekstri Hörpu og spurt með hvaða hætti þeim fyrirmælum hafi verið framfylgt nú tíu mánuðum síðar. Einnig hafi komið fram í sömu bókun að gerð yrði sérstök úttekt á rekstri hússins og ekki farið í neinar framkvæmdir við húsið meðan á úttektinni stæði sem ekki leiddu til viðbótartekna.
Spurt er í framhaldi af því hvers vegna fimm mánuðir hafi liðið frá þeirri samþykkt þar til vinna hófst við umrædda skýrslu og hvaða verksamningar hafi verið undirritaðir vegna vinnu í eða við Hörpu frá 3. nóvember 2011 fyrir hvaða fjárhæðir. Þá óskar Kjartan eftir upplýsingum um öll laun, þóknanir og/eða hlunnindi til stjórnarmanna í öllum þeim félögum sem tengjast rekstri Hörpu frá 15. júní 2010.