„Þetta er sjálfsagt einhver þörf fyrir að rífa kjaft“

Eiður Guðnason, fyrrverandi sendiherra, ráðherra og fjölmiðlamaður.
Eiður Guðnason, fyrrverandi sendiherra, ráðherra og fjölmiðlamaður. mbl.is/Jakob Fannar Sigurðsson

„Ég segi nú bara eins og þingmaðurinn þegar hann var orðinn sjötugur og ljóst að hann færi ekki í framboð aftur og honum var óskað til hamingju með þann áfanga. Þá sagði hann: Þetta er enginn áfangi,“ sagði Eiður Svanberg Guðnason, fyrrverandi sendiherra, ráðherra og fjölmiðlamaður, og hló þegar blaðamaður mbl.is hringdi í hann og óskaði honum til hamingju með að hafa í dag birt á heimasíðu sinni eittþúsundasta pistilinn þar sem hann fjallar um málfar í fjölmiðlum og hvað megi betur fara í þeim efnum, svokallaða málfarsmola.

Eiður segir fyrir það fyrsta að hann hafi alls ekki haft í huga að skrifa svona marga pistla í upphafi þegar hann hóf skrifin. Hann játar því hins vegar aðspurður að vissulega hafi margir haft samband við sig í gegnum tíðina vegna þeirra. „Það eru margir sem hafa haft samband við mig vegna þessara skrifa, miklu fleiri en ég átti von á. Ég kom til dæmis á vinnustað áðan þar sem mér var að sjálfsögðu boðið í molakaffi,“ segir Eiður og bætir því við að það komi sér nokkuð á óvart þegar ókunnugt fólk víki sér að honum og þakki fyrir. „Mér þykir auðvitað ákaflega vænt um það. Það eru nefnilega miklu fleiri en maður skyldi halda sem hafa áhuga á móðurmálinu. Þeir eru sem betur fer mjög margir.“

Mikið til sömu villurnar aftur og aftur

Eiður segir að það skuli viðurkennast að frekar sé um að ræða fólk á miðjum aldri og upp úr sem hafi þakkað fyrir framtakið en hann tekur undir með blaðamanni að líklega sé því svipað farið og með ættfræðina sem fólk virðist almennt öðlast meiri áhuga á eftir því sem árunum fjölgar. „Ég get bara litið í eigin barm í því sambandi. Maður fór ekki að fá áhuga á þeim fræðum fyrr en það var orðið svo seint að það voru ansi margir horfnir sem maður hefði viljað tala við. Það kemur líka oft fyrir að það víkur sér að mér fólk sem segist vera skylt mér og þá þarf ég auðvitað að fara að rekja úr því garnirnar. Það er nefnilega svo að ef tveir Íslendingar hittast á förnum vegi þá komast þeir gjarnan að því að þeir séu sennilega skyldir og ef þeir eru ekki skyldir þá þekkja þeir líklega sama fólkið.“

Spurður áfram um málfarsskrifin segir Eiður að þau hafi eiginlega einhvern veginn hafist af sjálfu sér. „Þetta er sjálfsagt líka einhver þörf fyrir að rífa kjaft,“ segir hann og hlær. „Ég var svo heppinn að hafa mjög góða íslenskukennara alla mína skólatíð. Svo fór ég að vinna á Alþýðublaðinu og þá var þar prófarkalestur og síðan voru sumir setjararnir mjög góðir íslenskumenn og lagfærðu villur. Nú eru setjarar og prófarkalestur úr sögunni. En það vantar þarna að einhver lesi yfir og samræmi,“ segir hann og vísar þar til netmiðlanna.

Spurður hvort hann telji málfar á slíkum miðlum hafa versnað eða batnað segist Eiður ekki hafa neina tilfinningu fyrir því. Hins vegar séu það mikið sömu villurnar sem verið er að gera aftur og aftur. „Menn athuga til dæmis ekki hvaðan þeir fóru af stað þegar punkturinn er settur og þá gengur setningin ekki upp. Síðan er það svo að þegar tölvurnar komu og tilheyrandi ritvinnslukerfi að þá fóru að koma öðruvísi villur en áður. Ég sé það bara hjá sjálfum mér að ég þarf að passa mig þegar ég fer að laga setningar eftir á að stundum þurrka ég of mikið út. Síðan er eiginlega ómögulegt að lesa próförk af skjá.“

Fjallar meira um suma fjölmiðla en aðra

Aðspurður hvort hann hafi íhugað að gefa málsfarspistlana út segir Eiður ýmsa hafa nefnt þá hugmynd við sig en hann hafi þó ekki velt því neitt alvarlega fyrir sér. „Þetta eru fyrst og fremst dægurflugur. Það væri þá hugsanlega hægt að velja einhverja pistla og láta þá síðan bara húrra óbreytta, eins og það er stundum orðað, en ég hef ekkert hugsað það til enda.“ Spurður um framhaldið segir hann að það verði bara að koma í ljós. Hann hafi stundum sagt á síðunni að nú yrðu pistlarnir eitthvað stopulli en það hafi síðan ekki orðið raunin. „Það er enginn sem rekur á eftir mér, ég er engum háður, það er enginn sem borgar mér fyrir þetta og ég er bara minn eigin herra.“

Eiður segir að undanfarið hafi hann skrifað um sex sinnum á viku og það ráðist einfaldlega hvernig það þróist. Stundum sé hann með tvo, þrjá pistla tilbúna fram í tímann þegar mikið reki á fjörurnar og margir sendi ábendingar. Stundum sé það minna. „Svo verður að viðurkennast að það gjalda sumir miðlar fyrir það að ég fylgist betur með þeim en öðrum. Ég les mbl.is til dæmis meira en aðra miðla og ég hlusta á Ríkisútvarpið meira en aðra slíka miðla. Ég hef til dæmis aldrei komist upp á lagið með að hlusta á Bylgjuna einhverra hluta vegna. En þetta eru auðvitað fyrirferðarmestu miðlarnir í fjölmiðlaheiminum. Það verður bara að segja það eins og er.“

Hann ítrekar að lokum að framhaldið á skrifunum einfaldlega ráðist, hann sé ekki með neinar áætlanir í þeim efnum og það ýti enginn á hann. „Það kemur bara í ljós hvernig morgundagurinn verður. Það eru engin plön og engin pressa, ég er bara algerlega einn og óháður,“ segir hann og hlær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert