Dögun og Borgarahreyfingin sameinast formlega í næstu viku samkvæmt upplýsingum frá framboðinu en einnig standa að því Frjálslyndi flokkurinn og Hreyfingin auk einstaklinga úr stjórnlagaráði. Af sama tilefni fer fram kjör í stjórn framboðsins en framkvæmdaráð þess fundaði í gærkvöldi um næstu skref þess.
Meðal þess sem samþykkt var á fundi framkvæmdaráðsins var að ráðinn yrði kosningastjóri í október sem meðal annars muni hafa það verkefni að aðstoða við stofnun kjördæmafélaga. Grundvallarstefna Dögunar var hins vegar samþykkt á stofnfundi í mars síðastliðnum og er aðgengileg á heimasíðu framboðsins, www.xdogun.is.
Kosningaundirbúningur Dögunar hefst með rútuferðum framboðsins í kjördæmin í september og október og verður nýtt til þess rúta sem ferjað hefur þó nokkrar ríkisstjórnir á langri ævi sinni samkvæmt upplýsingum frá Þórði Birni Sigurðssyni, formanni framkvæmdaráðs Dögunar.
Val frambjóðenda verður hins vegar ákveðið síðar en stefnt er að því að framboðslistar verði tilbúnir í síðasta lagi í janúarlok að sögn Þórðar. Samkvæmt samþykktum Dögunar er félagsfundi í hverju kjördæmi ætlað að velja á milli fimm valmöguleika í þeim efnum; forvals, blöndu af forvali og slembivali, uppstillingar óröðuðum lista til persónukjörs eða annars fyrirkomulags samkvæmt samþykki félagsfundar.
Stefnumótunarvinna málefnahópa er á góðu skriði að sögn Þórðar og er gert ráð fyrir að heildræn stefnuskrá líti dagsins ljós á næstu vikum. Landsfundur framboðsins er ráðgerður í mars 2013.