Velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, tók þá ákvörðun í ágúst að hækka mánaðarlaun forstjóra Landsspítalans um 450 þúsund krónur. Laun forstjórans, Björns Zoëga, nema nú um 2,3 milljónum króna samkvæmt hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.
Fram kemur í fréttinni að Birni hafi á dögunum verið boðin staða forstjóra stórs sjúkrahúss í Svíþjóð en inni í því tilboði hafi verið veruleg launahækkun. Björn hafi velt tilboðinu fyrir sér og því upplýst yfirmenn sína um það og þar á meðal Guðbjart.
Guðbjartur segist í fréttinni hafa tekið þá ákvörðun að hækka laun Björns upp á sitt einsdæmi og ekki haft samráð við kjararáð vegna hennar. Segist hann hafa metið það svo að það kostaði miklu meira að halda ekki forstjóranum í gegnum það verkefni sem hann hafi umsjón með.
Rifjað er upp í fréttinni að sett hafi verið inn ákvæði í lög um kjararáð árið 2009 þess efnis að ráðið ætti við ákvarðanatöku sína að gæta þess að föst laun þeirra sem heyrðu undir ákvarðanir þess fyrir dagvinnu yrðu ekki hætti en föst laun forsætisráðherra að undanskildum forseta Íslands. Laun forsætisráðherra séu í dag rúmlega 1,2 milljón á mánuði.
Í ákvörðun kjararáðs um Björn er heimild til þess að hann sinni læknisstörfum og segir Guðbjartur að verið sé að hækka þann hluta launa hans. Þá segir hann mikla umræðu hafa verið frá bankahruni um laun forstöðumanna ríkisstofnana og að sú umræða haldi áfram aðspurður um ákvæði laga um kjararáð. Þá standi til að breyta lögum um ráðið.