Minkahúsið klauf meirihlutann

„Ég verð að íhuga mína stöðu innan sveitarstjórnar í kjölfar þessa máls,“ segir Gunnar Örn Marteinsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, en harðar deilur hafa verið í sveitarstjórn um staðsetningu á minkahúsi. Gunnar greiddi einn atkvæði gegn deiliskipulagi þegar það var afgreitt á fundi í vikunni.

Þetta mál snýst um áform eigenda jarðarinnar Ása í Skeiða- og Gnúpverjahreppi um að reisa 8.880 fermetra minkahús sem rúmað getur 4.000 læður. Á annarri landspildu í landi Ása er rekið eitt stærsta minkabú landsins þar sem eru rúmlega 5.000 læður.

Samkvæmt tillögu að deiliskipulagi er fyrirhugað að reisa nýja minkabúið á 4,5 hektara landspildu sem er við landamerki Ása og jarðanna Stóra-Núps og Skaftholts. Eigendur Stóra-Núps og Skaftholts hafa gert athugasemdir við þessa staðsetningu en þeir telja að lyktarmengun verði frá búinu og það hafi áhrif á nýtingu jarðanna því að áhrifasvæði búsins nái inn á þeirra jarðir. Þeir benda á að Ásar séu stór jörð og hægt sé að staðsetja minkabúið á öðrum stað á jörðinni.

Deilt um lyktarmengun

Lögmaður ábúenda á Ásum segir í greinargerð að ekkert liggi fyrir um að lyktarmengun frá minkabúi sé meiri en frá venjulegu kúabúi. Staðsetning búsins hafi verið valin út frá því að fyrirhugað sé að samreka búið með hinu minkabúinu sem er á jörðinni. Ekki sé auðvelt að finna aðra staðsetningu vegna klettabelta á jörðinni nema auka verulega stofnkostnað.

Málið hefur verið ítarlega skoðað innan sveitarstjórnar og m.a. var lögmaður sveitarstjórnar beðinn að gefa álit. Í niðurstöðum hans segir að þessi staðsetning minkabúsins muni hafa áhrif á verð hinna jarðanna. Hann telur eðlilegt að umsækjandi um deiliskipulagið leggi fram gögn um möguleg grenndaráhrif og mótvægisaðgerðir. Hann segir síðan: „Með hliðsjón af framangreindu og því að ekki er um að ræða starfsemi í almannaþágu, með hliðsjón af almennum reglum stjórnsýsluréttar, um meðalhóf og með vísan til sjónarmiða sem fram koma í 72. gr. stjórnarskrár, um vernd eignarréttar, verður að telja hæpið að samþykkja slíka starfsemi í andstöðu við eigendur aðliggjandi jarða en ekki liggur fyrir að starfseminni verði ekki komið fyrir annars staðar á landi umsækjanda.“

Telur að ákvörðunin verði kærð

Fimm sitja í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps, en þrír fulltrúar K-lista mynda meirihluta. Fjórir greiddu atkvæði með deiliskipulaginu en Gunnar Örn Marteinsson oddviti var einn á móti.

Gunnar segist vera mjög óánægður með þessa afgreiðslu. Hann segist telja hana vanhugsaða og líklegt að hún leiði til fjárútláta fyrir sveitarsjóð. Allar líkur séu á að ákvörðunin verði kærð og þá verði bætur sóttar til sveitarstjórnar sem hafi tekið ákvörðun í málinu, en ekki til þeirra sem reisa ætla minkabúið. Þess má geta að ábúendur á Ásum hafa boðist til greiða kostnað við málrekstur vegna málsins, en lögmanni eigenda Stóra-Núps þykir hæpið að byggja á því.

Gunnar segir að út frá 500 metra radíuss-reglunni verði ekki hægt að byggja íbúðarhús á áhrifasvæði minkabúsins og þar með skerðist möguleikar eigenda hinna jarðanna til að nýta lönd sín. Hann telur að ekki hafi verið reynt til þrautar að finna annan stað fyrir minkabúið, m.a. vegna þess að það hafi alla tíð legið fyrir í sveitarstjórn að meirihluti var fyrir málinu. Gunnar tók fram að hann væri ekki á móti uppbyggingu minkahúss í sveitarfélaginu.

Í samræmi við aðalskipulag og stefnu sveitarfélagsins

Harpa Dís Harðardóttir, sem situr í sveitarstjórn fyrir hönd K-lista, segist ekki geta útilokað að þessi ákvörðun sveitarstjórnar verði kærð, en hún segist vona að ekki komi til þess. Hún bendir á að allt þetta svæði, á öllum jörðunum þremur, eigi samkvæmt aðalskipulagi að vera til landbúnaðarnotkunar. Það sé stefna sveitarstjórnar að efla landbúnað í sveitarfélaginu og uppbygging minkabúsins sé því í samræmi við þá stefnu.

Harpa segir að það sé mikið búið að funda um þetta mál og rætt hafi verið við fleiri lögmenn en lögmenn sveitarfélagsins. Hún segist telja að ákvörðunin hafi verið tekin á faglegum forsendum. Hún segist vona að þetta mál komi ekki til með að hafa áhrif á samstarfið í sveitarstjórn. Menn verði að þola að fulltrúar í sveitarstjórn hafi mismunandi skoðanir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert