Norðmenn hagnast á láni til Íslands

Fram kemur á norska fréttavefnum Abcnyheter.no að Norðmenn hafi hagnast um 132 milljónir norskra króna (um 2,7 milljarða íslenskra króna) á neyðarláni sem þeir veittu Íslandi í kjölfar bankahrunsins hér á landi haustið 2008 ofan á venjubundnar vaxtagreiðslur.

Lánið var veitt árið 2009 sem hluti af lánapakka frá Norðurlandaþjóðunum og nam hlutur Norðmanna 480 milljónum evra og voru vextir 2,5%. Ofan á það bættist álag upp á 2,75%. Í heildina var norræna lánið 1,8 milljarðar evra.

Haft er eftir leiðtoga norska stjórnmálaflokksins Rautt, Bjørnar Moxnes, að það sé furðulegt að vinstristjórnin í Noregi geti ekki veitt vina- og nágrannaþjóð lánafyrirgreiðslu á eðlilegum kjörum og gagnrýnir þar með álagið á vextina.

Roger Schjerva, ráðuneytisstjóri í norska fjármálaráðuneytinu, segir hins vegar að eðlilegt sé að óska eftir slíku álagi ofan á lánafyrirgreiðslur af þessu tagi. Þá hafi áhætta fylgt því að lána Íslandi á þessum tíma og engir aðrir hafi viljað það.

Hann segir ennfremur að Íslendingar hafi ekki óskað eftir þeirri fyrirgreiðslu að ekki yrði um neitt álag yrði að ræða. Auk þess hefði verið óeðlilegt að veita ríku landi eins og Íslandi slíka fyrirgreiðslu.

Frétt Abcnyheter.no

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka