Fylgst hefur verið með þróun kynbundins launamunar hjá Reykjavíkurborg með reglulegum könnunum í áraraðir. Í tilkynningu frá borginni segir að þannig hafi verið hægt að bregðast við með skipulegum hætti og hafi aðgerðir borgarinnar, s.s. með því að innleiða starfsmat, skilað sýnilegum árangri til að jafna launamun kynja.
„En betur má ef duga skal. Starfshópur um aðgerðir gegn kynbundnum launamun, sem er nú að störfum, mun á haustmánuðum skila áætlun um hvernig megi tryggja launajafnrétti karla og kvenna hjá borginni,“ segir í tilkynningunni.
Kynbundinn launamunur verði útrýmdur
Slíkri áætlun er ætlað að útrýma kynbundnum launamun að fullu. Gildandi kjarasamningar starfsmanna Reykjavíkurborgar byggja á kjarasamningum sem gerðir voru við viðsemjendur á síðasta ári.
Fram kom í dag að kynbundinn launamunur, sem eingöngu er hægt að rekja tl kynferðis þegar búið er að taka tillit til annarra áhrifaþátta, hefur aukist milli ára hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar úr 9% í fyrri í 11,8% nú, samkvæmt nýrri launakönnun.