Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur áhyggjur af því hversu fá mál vegna kynferðisofbeldis gegn börnum fari fyrir dómstóla og að enn færri leiði til sakfellingar. Stjórnvöld ættu að tryggja tafarlausa rannsókn á málum sem tilkynnt eru og að ofbeldismenn hljóti makleg málagjöld.
Í nýlegu áliti mannréttindanefndarinnar er áhyggjum lýst af því að tilkynningar til barnaverndarnefnda um kynferðisofbeldi gegn börnum verði ekki til þess að ákæra er gefin út á hendur ofbeldismanninum. Meðal þess sem lagt er til að gert verði er að auka fræðslu til kennara og annarra sem vinna með börnum, en einnig heilbrigðisstarfsfólks, lögreglumanna og lögmanna.