Stjórn Læknafélags Íslands segir að það skjóti óneitanlega skökku við að laun forstjóra Landspítalans Björns Zoëga séu hækkuð á einu bretti um 450 þúsund krónur þegar litið er til ástandsins á Landspítalanum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórn Læknafélags Íslands.
„Í fréttum Ríkisútvarpsins hefur komið fram að velferðarráðherra ákvað að hækka á einu bretti laun forstjóra Landspítalans um 450 þúsund krónur á mánuði. Það kom einnig fram að velferðarráðherra var með þessu að bregðast við atvinnutilboði sem forstjóranum hafði borist frá Svíþjóð.
Þessi mikla hækkun skýtur óneitanlega skökku við þegar litið er til ástandsins á Landspítalanum og áralangs niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu. Þjónusta við sjúklinga hefur verið skert, starfsfólki fækkað, kjörin rýrð og ekki hefur fengist nægilegt fé til að endurnýja úr sér gengin bráðnauðsynleg lækningatæki. Læknafélag Íslands telur að vel menntaðir heilbrigðisstarfmenn eigi að fá laun í samræmi við menntun, reynslu og aukið álag í starfi og að reynt sé að sporna við brottflutningi þeirra í betur launuð störf í öðrum löndum. Þetta á við um fleiri en forstjóra Landspítalans.
Stjórnvöld eru hvött til snúa af áralangri braut niðurskurðar í velferðarmálum en setja þess í stað endurreisn heilbrigðisþjónustunnar í heild í algeran forgang,“ segir í yfirlýsingu stjórnarinnar.