44 tonn fóru næstum fram af brúnni

Litlu munaði að vörubíllinn færi fram af brúnni yfir Stóru-Laxía …
Litlu munaði að vörubíllinn færi fram af brúnni yfir Stóru-Laxía en hann valt við brúarendann. mbl.is/Sigurður Sigmundsson

„Hann skautaði á handriðinu hálfur út af brúnni, en skrönglaðist út af og liggur þar á hliðinni. Það munaði mjög litlu að hann færi út af brúnni,“ segir Pálmar Þorgeirsson, vöruflutningabílstjóri í Hreppunum. Hluti burðarvirkis nýs íþróttahús sem byggja á á Höfn skemmdist þegar vörubíll valt í morgun.

Dágóður skellur en bílstjórinn ómeiddur

Slysið átti sér stað við þjóðvegabrúna á leiðinni frá Flúðum um hálfsexleytið í morgun og var veginum lokað um stund. Vegagerðin er nú búin að hreinsa veginn þannig að opið er fyrir umferð að nýju en að öllum líkindum mun þurfa að loka veginum aftur um tíma þegar bíllinn og farmurinn verður hífður upp, en beðið er kranabíls.

Að sögn Pálmars, sem sér um flutningana, voru þetta samtals 44 tonn sem fóru á hliðina og hefur skellurinn því verið dágóður. Ljóst er að illa hefði getað farið, ekki síst ef bíllinn hefði endað í ánni, en bílstjórinn er að sögn Pálmars ómeiddur. 

Óvíst hvort framkvæmdir á Höfn tefjast

Vöruflutningabíllinn var sá fremri í samfloti tveggja bíla sem lögðu upp frá Flúðum snemma í morgun til að flytja hluta burðarvirkis húss sem reisa á yfir gervigrasvöll á Höfn í Hornafirði. Líkt og fram kemur í Morgunblaðinu í dag er húsið gjöf frá útgerðarfyrirtækinu Skinney-Þinganesi, en það verður í kringum 4.000 fermetrar að stærð og því talsvert magn sem flytja þarf á staðinn.

Burðarvirkið er framleitt í Límtré á Flúðum og var áætlað að flutningabílarnir þyrftu að fara alls 13 ferðir til að koma því öllu á áfangastað. Að sögn Pálmars er þegar búið að fara níu ferðir sem gengu vel. „Síðan átti að fara þessar tvær ferðir í dag og svo síðustu tvær eftir viku eða hálfan mánuð.“ 

Pálmar segir ljóst að farmurinn sé talsvert skemmdur, en farið verði með hann aftur í verksmiðju Límtrés á Flúðum og gert við hann. Hann segir óvíst hvort framkvæmdir við húsið á Höfn muni tefjast vegna þessa. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert