Ólöf Nordal verður í forystu Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í vetur, en gefur ekki kost á sér sem varaformaður á næsta landsfundi og hættir á þingi í vor.
Hún hyggst flytja til Sviss eftir að kjörtímabilinu lýkur, en Tómas Már Sigurðsson, eiginmaður hennar, tók nýlega við sem forstjóri Alcoa í Evrópu og eru höfuðstöðvarnar í Genf.
„Ég vanda mig við að klára verkið hér heima og svo er ég viss um að lífið kemur manni alltaf á óvart,“ segir hún í viðtali í Sunnudagsmogganum. Hún ætlar ekki að hætta afskiptum af stjórnmálum og útilokar ekki endurkomu síðar. „Maður á aldrei að loka neinum dyrum.“
Ólöf segir þingið standa frammi fyrir erfiðum ákvörðunum í vetur. Þótt jákvæð teikn séu á sjóndeildarhringnum, þá sé atvinnuvegafjárfesting óviðunandi og hún sé nauðsynleg ef viðhalda eigi hagvexti til lengri tíma. „Það er ekki um annað að ræða en að skapa atvinnu og lækka álögur á fólk. Það hljómar einfalt, en þetta er veruleikinn sem blasir við.“