Samtals störfuðu 16.433 manns hjá ríkinu á síðasta ári samkvæmt svari Oddnýjar G. Harðardóttur fjármálaráðherra við fyrirspurn Unnar Brár Konráðsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Er miðað við þá starfsmenn sem fengu laun sín greidd af Fjársýslu ríkisins.
Flestir voru starfsmenn ríkisins árið 2007 eða 18.547 og hafði þá fjölgað um 2.490 frá því tveimur árum áður. Ríkisstarfsmönnum hefur hins vegar fækkað árlega frá árinu 2007. Flest störfin falla undir heilbrigðiskerfið.
Langstærstur hluti starfa á vegum ríkisins er í Reykjavíkurumdæmi en þar störfuðu samtals 12.183 manns á síðasta ári. Næstflestir voru í Norðurlandsumdæmi eystra, eða 1.106, og þar á eftir kom Reykjanesumdæmi með 1.095 starfsmenn.