Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 88,5 milljarða króna árið 2011 eða 5,4% af landsframleiðslu, en án áfallinna ríkisábyrgða var hún neikvæð um 69 milljarða króna. Þetta kemur fram í efnisflokknum þjóðhagsreikningum um fjármál hins opinbera hjá Hagstofu Íslands.
Til samanburðar var tekjuafkoman neikvæð um 155 milljarða króna árið 2010 eða 10% af landsframleiðslu, en án áfallinna ríkisábyrgða 99 milljarða króna eða 6,5% af landsframleiðslu. Tekjur hins opinbera námu 681 milljarði króna og hækkuðu um 43,6 milljarða króna milli ára eða 6,8%. Sem hlutfall af landsframleiðslu mældust þær 41,9% samanborið við 41,5% 2010 og 41,0% 2009. Útgjöld hins opinbera voru 769 milljarðar króna og lækkuðu um 22,5 milljarð króna milli ára eða 2,8%, úr 51,5% af landsframleiðslu 2010 í 47,3% 2011. Án áfallinna ríkisábyrgða árin 2010 og 2011 vegna banka og lánasjóða jukust útgjöld hins opinbera hins vegar um tæpa 14 milljarða króna.
Til þriggja stærstu málaflokka hins opinbera, þ.e. heilbrigðis-, fræðslu- og velferðarmála, runnu 443 milljarðar króna árið 2011 eða 57,6% útgjalda hins opinbera, en það svarar til 27,3% af landsframleiðslu. Af heildarútgjöldunum runnu 16,1% til heilbrigðismála, 16,7% til fræðslumála og 24,8% til velferðarmála.
Útgjöld til heilbrigðismála voru 147,4 milljarðar króna árið 2011, eða 9,1% af landsframleiðslu. Þar af var fjármögnun hins opinbera 118,5 milljarðar króna og hlutur heimila um 29 milljarðar eða 19,6%. Á mann námu heilbrigðisútgjöld hins opinbera 372 þúsund krónum. Til fræðslumála var ráðstafað 128 milljörðum króna árið 2011, eða 7,9% af landsframleiðslu. Þar af var fjár-mögnun hins opinbera rúmlega 116 milljarðar króna og hlutur heimila 12 milljarðar króna, eða 9,4%. Á mann námu fræðsluútgjöld hins opinbera 365 þúsund krónum. Til almannatrygginga og velferðarmála ráðstafaði hið opinbera 191 milljarði króna 2011, eða 11,7% af landsframleiðslu en það svarar til 599 þúsund krónur á mann.
Hrein peningaleg eign hins opinbera, þ.e. peningaleg eign umfram skuldir, var neikvæð um 899 milljarða króna í árslok 2011, eða sem svarar 55,3% af landsframleiðslu. Hún versnaði um 159 milljarð króna milli ára eða 7,1% af landsframleiðslu. Peningalegar eignir hins opinbera námu 1.283 milljörðum króna í árslok 2011 (78,9% af landsframleiðslu) og heildarskuldir 2.182 milljörðum króna (134,2% af landsframleiðslu).