Staurarnir brotnir eins og eldspýtur

„Það er náttúrulega búin að vera mokandi norðanhríð hérna í nótt og í morgun, alveg með eindæmum. Línurnar voru orðnar rosalega sligaðar í morgun,“ segir Gísli Rafn Jónsson, skólabílstjóri, í samtali við mbl.is en fjölmargir rafmagnsstaurar lágu brotnir í morgun við leiðina sem hann ekur með skólabörn til Reykjahlíðar við Mývatn.

Gísli segir að þegar hann hafi ekið börnin í skólann í morgun hafi rafmagnslínurnar verið alveg niður við jörð víða vegna ísingar og átta staurar brotnir. Þegar hann hafi ekið aftur til baka um klukkutíma síðar hafi fjórir rafmagnsstaurar verið „brotnir eins og eldspýtur“ til viðbótar við þá sem voru brotnir þegar hann fór framhjá í fyrra skiptið. Hann hafi síðan farið aðra ferð nokkru síðar og þá hafi hann séð aðra fjóra staura farna.

„Ég hef aldrei nokkurn tímann séð línuna svona svakalega og er ég nú búinn að keyra hérna þónokkuð lengi. Ég efast um að þetta hafi nokkurn tímann farið svona bara síðan rafmagni var komið hér á 1950 og eitthvað,“ segir Gísli. Spurður hvort þetta hafi þá ekki minnt á dómínó-kubba tekur Gísli undir það.

„Það er þarna orðið kafli þar sem línan liggur bara niðri. Svo er þetta inni í úfnu hrauninu og það er ekkert grín að komast þarna að. Þú ferð ekkert með gröfu eða eitthvert tæki þarna. Þetta er alveg stórmál,“ segir Gísli. Hann segir færðina líka mjög hættulega enda mikið krap og mjög blautur snjór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert