Boðuð hafa verið mótmæli á Austurvelli á miðvikudaginn klukkan 19:30 vegna setningar Alþingis þar sem til stendur að berja tunnur í mótmælaskyni við þingmenn sem aðstandendur mótmælanna segja að hafi hundsað hagsmuni heimilanna í landinu og almenn lífskjör íbúa landsins. Af því tilefni hefur þingmönnum verið sent bréf. Í því segir meðal annars:
„Tunnurnar, sem hafa ómað af hjartslætti afskiptrar þjóðar undir stefnuræðu forsætisráðherra tvö undanfarin ár, harma það hvernig bæði flokkar og flestir þingmenn hafa snúist með fjármálastofnunum gegn almenningi. Þeim svíður sú ofuráhersla á hagsmuni banka og annarra innheimtustofnana sem hefur einkennt þetta þing líkt og þau á undan.“
Þá er skorað á þingheim að endurskoða verkefnalista þess þings sem sett verður á morgun og setja lánamál heimilanna í forgang og lausn á efnahagsvandanum sem fjármálastofnanir landsins hafi skapað. „Í þeim efnum skorum við á alla þingmenn að skoða alvarlega og heiðarlega allar lausnir sem hafa komið fram af gaumgæfni þannig að sú sem verður fyrir valinu feli ekki í sér annað þokkalega fyrirsjáanlegt efnahagshrun.“