Fóru í stutta bílferð til að kaupa drykki

Frá miðborg Tulsa í Oklahoma.
Frá miðborg Tulsa í Oklahoma. Ljósmynd/Wikipedia

Kristján Hinrik Þórsson var staddur með fjölskylduvini er skotið var á þá báða fyrir framan verslun í Tulsa í Oklahoma aðfaranótt laugardags með þeim afleiðingum að Kristján lést. Lögreglan í borginni fer nú yfir upptökur úr eftirlitsmyndavélum.

Þetta segir Dave Walker, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni í Tulsa. Hann segir að maðurinn, sem heitir John White hafi verið nágranni og vinur fjölskyldu Kristjáns og að hann hafi verið í heimsókn á heimili þeirra kvöldið sem árásin átti sér stað.

Að sögn Walkers bauðst White til að sækja drykki í nærliggjandi verslun, QuikTrip. Hann bauð Kristjáni með sér og móðir hans leyfði honum að fara með.

„Verslunin er staðsett innan við mílu (um 1,61 km) frá húsi þeirra. White fór inn í búðina og verslaði. Hann settist inn í bílinn og ætlaði að aka á brott þegar maður, sem talinn er hafa skotið á þá White og Kristján, hóf orðaskipti við White, sem að sögn vitna snerust um að White hefði ekið á manninn. Þau stóðu yfir í stutta stund áður en hinn grunaði hóf skothríð,“ segir Walker.

Ekkert fundist á öryggismyndavélum

Hann segir að ekki liggi fyrir hvar White á að hafa ekið á hinn grunaða. Ekkert í öryggismyndavélunum bendi til þess að það hafi gerst á bílastæðinu þar sem skotárásin átti sér stað.

„Ég er sannfærður um að ég finn eitthvað á öryggismyndavélunum. Það er eingöngu tímaspursmál.“

Walker segir að næstu skref séu að skoða myndefni sem nær yfir lengri tíma og vonast til að einhverjum bregði fyrir sem passar við lýsinguna á hinum grunaða. ,,Við teljum að hann búi á svæðinu," segir Walker.

3-4 vinna að rannsókn málsins

760 lögreglumenn vinna í höfuðstöðvum lögreglunnar í Tulsa. Í morðdeild lögreglunnar starfa níu rannsóknarlögreglumenn.

„Á milli 3 og 4 lögreglumenn vinna að rannsókn málsins frá morðdeildinni. Að auki eru um 20 lögreglumenn á vakt á nágrenni svæðisins þar sem morðið átti sér stað. Þeirra hlutverk er að kanna nánar minniháttar vísbendingar sem berast,“ segir Walker.

Að sögn Walkers eru næstu skref þau að kanna fortíð Kristjáns og Johns White. „Það er ekkert sem bendir til þess að hr. Þórsson hafi tengst upptökum þess sem gerðist.“

Það sem af er þessu ári hafa 33 morð verið framin í Tulsa.  Að sögn Walkers finnur lögreglan sökudólga í um 80% tilfella. „Um 10-15% morða eru tilefnislaus og án þess að nein tengsl séu á milli árásarmanna og fórnarlamba. Þegar við náum skotmanninum getum við vonandi skýrt betur hvers vegna skotárásin átti sér stað,“ segir Walker

Kristján Hinrik Þórsson.
Kristján Hinrik Þórsson. mbl.is
Dave Walker rannsóknarlögreglumaður hjá morðdeild lögreglunnar í Tulsa.
Dave Walker rannsóknarlögreglumaður hjá morðdeild lögreglunnar í Tulsa. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert