Skógrækt á meginþorra láglendis Íslands eru ekki settar skorður í lögum eða reglugerðum. Skógræktarfélag Íslands hefur hins vegar gefið út almennar leiðbeiningar um framkvæmd skógræktar og gott verklag sem æskilegt er að fylgja. Nefnast leiðbeiningarnar Skógrækt í sátt við umhverfið og má sjá þær á vefsíðu Skógræktarfélagsins, www.skog.is. Ekkert bannar þó landeigendum að planta hverju sem er, nánast hvar sem er og hvernig sem er.
Jón Loftsson, skógræktarstjóri hjá Skógrækt ríkisins, segir að engin lög banni það að landeigendur gróðursetji tré í sínu landi.
„En það eru ákveðnar leiðbeiningar, sem nefnast Skógrækt í sátt við umhverfið, sem æskilegt er að menn fara eftir. Í þeim er listað upp hvernig á að bera sig að þegar verið er að planta. Eftir því reyna menn að fara en svo eru náttúrlega sumir sem gera það ekki og það er erfitt við að eiga,“ segir Jón.
Þeir sem taka þátt í skógræktarverkefnum sem ríkið styrkir verða að fara eftir þeim leiðbeiningum sem taldar eru upp í Skógrækt í sátt við umhverfið. „Fyrst er landið skoðað og metið og allt skráð, síðan gera skógfræðingar áætlun um það hvað þú átt að og mátt gróðursetja, til dæmis má ekki gróðursetja í mýrar og ekki skyggja á ákveðna staði. Þeir leiðbeina um hvaða tegundir á að nota og hvernig á að jarðvinna og hvar eiga að vera slóðar. Þessi áætlun er svo samþykkt og gildir þá til tíu ára. Þú verður að fara eftir henni og það þýðir ekkert að víkja út af því. Langflestir fara þessa leið.“
Stundum hefur verið kvartað yfir því að skógræktarreitir skyggi á náttúrufegurðina og menn velta fyrir sér hvað hafi fengið fólk til að planta trjám á ákveðna staði. Jón segir þá reiti oft vera leifar af hugsuninni eins og hún var áður fyrr. „Hluti af dæminu er það sama og þegar menn voru að byrja trjárækt í Reykjavík fyrir einni öld. Þá var enginn sem hafði nokkra trú á því að þetta myndi nokkurn tímann komast upp og menn plöntuðu hríslunum við suðurvegginn í skjóli. Svo núna gnæfa þær yfir húsin.“
Í kjölfar hlýrra og betra veðurfars hér á landi hafa trjáplöntur dafnað vel. Spurður hvort við þurfum að hugsa upp á nýtt hvernig plantað er vegna þess, segir Jón það vera. „Við skógræktarmenn hugsum í öldum og ef það gengur eftir að hlýnun á þessari öld verði tvær gráður munar miklu um þær í skógræktinni. Þá verðum við væntanlega að planta öðrum tegundum og búa til skóg sem verður eftir 100 ár allt öðruvísi skógur en við erum að gera í dag. Við þurfum að fara að huga að því hvaða eik eða beyki við ætlum að planta á Sprengisandi,“ segir hann kankvís.
Jón segir að skógrækt sé stórtækari nú en fyrir fjörutíu árum en síðan eigi hann von á því að náttúrulegur birkiskógur verði hlutfallslega stærsta skóglendið hér á landi í framtíðinni, miklu frekar en gróðursett tré. „Vegna beitarfriðunar og hlýnunar loftslags mun verða meira um skóg sem náttúran sér um að koma upp sjálf. Þá erum við að tala um birki og víði sem eru ekki mikil nytjatré og vaxa hægt.“
Von er á nýjum lögum um skógrækt en þau gömlu eru að stofninum til frá árinu 1955 og orðin barn síns tíma að sögn Jóns. Hann vonar að með nýjum lögum vænkist hagur skógræktarinnar.