Lausamunir hafa víða verið á ferð og flugi í óveðrinu í dag, en ekki er vitað til þess að slíkt fok hafi valdið teljandi tjóni. Fiskikör tókust á loft og fuku nokkurn spöl í Bolungarvík rétt eftir hádegi. Þá fuku þar í bæ einnig tveir geymsluskúrar í nótt.
Í Hnífsdal fuku járnplötur sem áður höfðu verið losaðar af þaki. Afar hvasst er í Vestmannaeyjum, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni þar. Björgunarsveitir og lögregla eru á þönum um bæinn við að aðstoða fólk í vanda, en alls hafa borist 40 útköll vegna foks af ýmsu tagi. Járnplötur hafa losnað af húsum, ýmsir lausamunir hafa fokið og þak fauk af bílskúr.
Á Blönduósi hafa lausamunir verið á hreyfingu, „ýmist drasl og trampólín“ samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Ekki er vitað um neitt tjón af þessum völdum.
Þá fauk húsbíll og valt á hliðina hjá Kolgrímu í Suðursveit. Að sögn lögreglunnar á Höfn urðu þar engin slys á fólki, en bíllinn skemmdist töluvert.