Við setningu nýs þings mun Margrét Tryggvadóttir taka við hlutverki formanns þinghóps Hreyfingarinnar af Þór Saari. Birgitta Jónsdóttir verður varaformaður þinghópsins og Þór ritari hans. Þingmenn Hreyfingarinnar skiptast á að gegna þessum hlutverkum, eitt ár í senn, sem tryggir jafnræði og valddreifingu innan þinghópsins, segir í tilkynningu frá þingmönnunum.
Þór Saari afþakkar formannsálag
Einnig verða formannsskipti í Hreyfingunni sjálfri en þá mun Þór Saari taka við hlutverki formanns í stað Birgittu Jónsdóttur. „Formennska í Hreyfingunni er fyrst og fremst til að uppfylla ákveðin formsatriði en er ekki hefðbundin valdastaða pólitískrar hreyfingar eða flokks. Þór Saari, mun líkt og fyrrverandi formenn Hreyfingarinnar afþakka formannsálag á þingfarakaup sitt en þeir formenn stjórnmálaflokka sem ekki eru ráðherrar þiggja yfirleitt laun frá Alþingi vegna þess starfs auk þingfararkaupsins,“ segir í tilkynningu þingmannanna.
„Umrætt álag, álag vegna starfa í þágu frjálsra félagasamtaka sem engin ástæða er til að greiða fyrir af almannafé, er hálft þingfararkaup, eða kr. 305.097,- á mánuði eins og þingfararkaupið er núna. Í upphafi kjörtímabilsins var hálft þingfarakaup kr. 260.000,- á mánuði. Samtals sparast því á bilinu 12,5 mkr. - 14,6 mkr. á kjörtímabilinu sökum þess að þingmenn Hreyfingarinnar afþakka formannsálagið,“ segir í tilkynningunni.