Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2013 gerir ráð fyrir 2,8 milljarða halla. Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra segir frumvarpið ekki fela í sér niðurskurð heldur eðlilegt aðhald til að hægt sé að takast á við ný verkefni.
Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í dag, en fjárlagafrumvarpið er jafnan fyrsta mál sem lagt er fram eftir að þing hefur verið sett. Reiknað er með að heildarútgjöld ríkissjóðs á árinu 2013 verði 573,1 milljón og hækki um 13,7% frá endurskoðaðri áætlun þessa árs. Reiknað er með að tekjur verði 570,3 milljarðar og aukist um 36,8 milljarða frá fyrri áætlun.
Þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir tók við völdum á árinu 2009 var lögð fram áætlun í ríkisfjármálum til ársins 2013. Samkvæmt henni átti að skila afgangi á frumjöfnuði (afgangur að frádregnum fjármagnskostnaði) á árinu 2011 og 2,9% afgangi á heildarjöfnuði á árinu 2013. Tekið er fram að áætlunin verði endurskoðuð. Það var líka gert og í fyrra var sett fram ný áætlun og samkvæmt henni átti markmið um afgang á frumjöfnuði að nást á þessu ári og síðan var markmiði um afgang á ríkissjóði frestað til ársins 2014.
Frumvarpið sem lagt var fram í dag er í samræmi við þessa áætlun. Þannig er í frumvarpinu gert ráð fyrir að hallinn á ríkissjóði verði 0,1% af vergri landsframleiðslu. Oddný sagði á blaðamannafundi í dag að hún gerði ráð fyrir að markmið fjárlaga um afgang á frumjöfnuði á þessu ári næðist.
Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að afgangur á frumjöfnuði á árinu 2013 verði um 60 milljarðar. Sú upphæð dugar ekki fyrir fjármagnskostnaði ríkissjóðs en gert er ráð fyrir að hann verði 88 milljarðar á næsta ári. Vaxtagjöld eru næstútgjaldamesti liður frumvarpsins, næst á eftir útgjöldum til velferðarmála.
Oddný sagði að í fjárlagafrumvarpinu væri lögð sérstök áhersla á tvennt. Annars vegar á að bæta hag barna og hins vegar á sérstakar aðgerðir til atvinnusköpunar. Samkvæmt þessu verða útgjöld vegna barnabóta aukin um 2,5 milljarða og verða 10,7 milljarðar á næsta ári. Vaxtabætur verða hækkaðar um einn milljarð, en 12,5 milljarðar eiga að fara til þessa málaflokks samkvæmt frumvarpinu. Oddný tók fram að ekki væri víst að tækist að hrinda í framkvæmd á næsta ári áformum um að taka upp nýtt húsnæðisbótakerfi.
Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að framlög til Fæðingarorlofssjóðs verði hækkuð á næsta ári um 800 milljónir, en framlög til sjóðsins voru skorin mikið niður eftir hrun.
„Þetta eru um margt merkilegt fjárlagafrumvarp. Við erum að ná jöfnuði og munum reka ríkissjóð með afgangi árið 2014. Þá getum við farið að greiða niður skuldir til framtíðar,“ sagði Oddný.
Frumvarpið gerir ráð fyrir að útgjöld til stjórnsýslu og þjónustu lækki að raungildi um 1,75%, um 1,2% til bótakerfa og sjúkratrygginga, 1% til háskóla og framhaldsskóla og 0,5% til löggæslustofnana. Ekki er gerð nein hagræðingarkrafa til heilbrigðiskerfisins, sjúkrastofnana og öldrunarkerfisins.
Þetta aðhald á að skila 4 milljörðum í sparnað. Til viðbótar kveður frumvarpið á um sérstakar aðhaldsaðgerðir upp á 2,7 milljarða. Samanlagt er því um 6,7 milljarða sparnað að ræða.
Oddný sagði að í samanburði við nágrannaþjóðir okkar stæðum við allvel. Hagvöxtur væri hér góður, okkur væri að takast að eyða halla á fjárlögum og atvinnuleysi væri að minnka. Við þyrftum hins vegar að halda vel á spöðunum á næstu árum. Ríkissjóður væri enn mjög skuldsettur. Skuldir hins opinbera (ríkissjóðs og sveitarfélaga) færu undir 90% af vergri landsframleiðslu á næsta ári. Æskilegt væri að þetta hlutfall væri ekki hærra en 60%.
Oddný nefndi sem dæmi um það verkefni sem Íslendingar stæðu frammi fyrir, að ef ríkissjóður skilaði 50 milljörðum árlega í afgangi næstu 10 árin myndu skuldir ríkissjóðs lækka um þriðjung. Skuldir ríkissjóðs nema núna um 1.500 milljörðum. Þær námu 196 milljörðum í árslok 2005.