„Birgir Ármannsson alþingismaður birti grein í Morgunblaðinu 5. september síðastliðinn undir heitinu „Gjaldmiðill, samningsafstaða og sjálfstæði Seðlabankans“. Þar spyr hann þeirrar spurningar hvort sjálfstæði Seðlabanka Íslands sé í hættu þar sem seðlabankastjóri sé formaður í samningahópi um gjaldmiðilsmál í viðræðum um aðild að ESB“, segir Már Guðmundsson, seðlabankastjóri í grein í Morgunblaðinu í dag. Segir Már að jafnframt sái Birgir fræjum efasemda um væntanlegt rit Seðlabankans um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum og gerir því skóna að það kunni að litast af samningsafstöðu ríkisstjórnarinnar í aðildarviðræðunum.
„Það er alltaf spurning hvort elta eigi ólar við allar fullyrðingar í fjölmiðlum, sem á stundum eru æði fjarstæðukenndar. Það gæfist þá minni tími til annarra og gagnlegri verka. En ég tel að í þessu tilviki sé ástæða til þar sem hér er alvarlegur, en kannski að einhverju leyti skiljanlegur, misskilningur á ferðinni,“ segir Már.
Már nefnir einnig bók Seðlabankans sem mun bera heitið Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum og kemur út 17. september nk. og segir m.a.: „Ritið hefur verið í vinnslu í um tvö ár og tekið lengri tíma en vonast var til þar sem verkið er viðamikið og það kallaði á umfangsmikla rannsóknarvinnu. Það hefur hins vegar ekki verið tilkynnt um ákveðinn útgáfudag fyrr en nú og því ekki alls kostar rétt að útgáfunni hafi verið ítrekað frestað. Enn meiri rangfærsla er það sem kom fram í staksteinum Morgunblaðsins um líkt leyti og grein Birgis birtist að ritið hafi verið tilbúið um nokkra hríð.“