Annar ekki umferð ef rýma þarf borgina

Eldgos í Eyjafjallajökli.
Eldgos í Eyjafjallajökli. Árni Sæberg

Ólíklegt er að Ártúnsbrekkan anni allri umferð ef rýma þarf höfuðborgarsvæðið í skyndi, hins vegar eru fleiri leiðir austur yfir Elliðaár, s.s. í gegnum Breiðholtshverfin, Bláfjallaleiðin og Suðurstrandavegur. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokks, um mat á hættu sem skapast gæti ef eldgos kæmi upp á Reykjanesi eða í Bláfjöllum.

Í svarinu kemur fram að Vegagerðin og almannavarnir hafa ekki lagt sameiginlegt mat á þá hættu sem skapast gæti á höfuðborgarsvæðinu við náttúruhamfarir. Hins vegar er unnið að heildstæðu hættumati vegna eldgosa á Íslandi og ætlunin að skoða eldstöðvar í ákveðinni röð, þ.e. fyrst undir jöklum, vegna hættu á sprengigosum, svo í Vestmannaeyjum og þá á Reykjanesi. Í hættumatinu verði þörf á rýmingu og framkvæmd hennar metin.

Þá segir einnig að verði eldgos í nágrenni borgarinnar telji ríkislögreglustjóri ólíklegt að rýma þyrfti allt höfuðborgarsvæðið heldur sé líklegra að flytja þurfi íbúa til innan svæðisins komi til slíkra atburða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka