Þingmenn sitja nú guðsþjónustu í Dómkirkjunni í Reykjavík sem hófst um klukkan hálftvö í dag. Að henni lokinni munu þeir ganga yfir í Alþingishúsið samkvæmt venju þar sem forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, mun setja þingið klukkan rúmlega tvö og flytja ávarp. Síðan verða meðal annars flutt þjóðlög og forseti Alþingis flytur ávarp.
Þingsetningarfundi Alþingis verður síðan frestað til klukkan fjögur en þá verður fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 dreift og þingmönnum úthlutað sæti í þingsalnum.
Séra Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup, predikaði í Dómkirkjunni og ræddi meðal annars um samband ríkis og kirkju. Þar lagði hann meðal annars áherslu á að tilvist þjóðkirkju í landinu grundvallaðist ekki á tengslum hennar við ríkið heldur þjóðina. Þá ógnaði tilvist þjóðkirkju ekki trúfrelsi í landinu.