„Það er gríðarlegur mannafli í þessu“

Viðgerðamenn Landsnets við viðgerðir á Kópaskerslínu í dag.
Viðgerðamenn Landsnets við viðgerðir á Kópaskerslínu í dag. Hreinn Hjartarson

„Við erum bara alltaf að tína fleiri og fleiri bæi inn. Við erum búnir að klára næstum allan Skagafjörðinn. Hluti af Mývatnssveit er enn úti en við erum komnir með þéttasta svæðið og hótelið inn, vorum að spennusetja það áðan. Þannig að það eru mikilvægir punktar komnir inn,“ segir Pétur Vopni Sigurðsson, hjá netrekstri RARIK á Norðurlandi, í samtali við mbl.is spurður að því hvernig gangi að koma rafmagni aftur á á því svæði sem varð rafmagnslaust í óveðrinu í gær.

„Við verðum að vinna í nótt að því að spennusetja í Báðardal og Reykjadal og síðan verður bara settur kraftur í Mývatnssveitina í fyrramálið og vonandi klárað á morgun,“ segir hann. Spurður um þann fjölda rafmagnsstaura sem brotnuðu í gær ekki síst á því svæði vegna veðursins segir Pétur að verið sé að vinna að því að leggja háspennujarðstreng ofanjarðar til bráðabirgða.

„Það er vegna þess að það er svo gríðarlega erfitt að fara um hraunið þar sem staurarnir eru staðsettir upp á gjótur að gera þar sem snjór er yfir. Þá er bara tímasparnaður að gera þetta svona. Síðan verður væntanlega farið í það að setja nýja staura og hugsanlega eitthvað lagt í jörðu. Við erum að leggja núna í Mývatnssveitina reikna ég með um tíu kílómetra af háspennustreng,“ segir Pétur.

Hann segir að það séu um 50 manns að vinna í því að koma málunum í samt lag hjá RARIK fyrir utan tækjamenn og björgunarsveitarmenn. „Það er gríðarlegur mannafli í þessu.“

Brotinn rafmagnsstaur í nágrenni Mývatns í gær.
Brotinn rafmagnsstaur í nágrenni Mývatns í gær. Ljósmynd/Gísli Rafn Jónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert