Fyrirkomulag við setningu Alþingis í dag verður með hefðbundnu sniði þrátt fyrir mikil mótmæli á Austurvelli í fyrra þegar þingið var sett.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, segir að skiptar skoðanir séu um þá ákvörðun forsætisnefndar Alþingis að halda óbreyttu fyrirkomulagi og það sé eðlilegt þar sem ástandið hafi verið óvenjuslæmt við þingsetninguna í fyrra. „Það er ekkert skrítið að mönnum ói við því að halda þessu óbreyttu ef það ætti að endurtaka sig. En ég tel að það eigi ekki eftir að gera það. Og ég treysti því,“ segir Ásta Ragnheiður.
Aðstandendur svonefndra Tunnumótmæla hafa boðað til mótmælafundar við Alþingi annað kvöld þegar umræður verða þar um stefnuræðu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.