Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, setti Alþingi nú skömmu eftir klukkan tvö og flutti að því loknu erindi þar sem hann lagði áherslu á mikilvægi þess að Alþingi endurheimti virðingu sína. Sagðist hann vona að tekið yrði á þeim vanda þingsins á komandi vetri.
Ólafur lagði áherslu á að aukin virðing Alþingis væri öllum í hag, bæði stjórn og stjórnarandstöðu sem og forseta Íslands. Að öðrum kosti myndu kröfur á forsetann halda áfram að aukast um að hann hlutaðist til um mál umfram það sem tíðkast hefði til þessa. Þjóðin yrði að geta treyst þinginu.
Hann sagði að á ferðum sínum um landið í aðdraganda forsetakosninganna fyrr á þessu ári hafi hann orðið var við að undiraldan í landinu færi vaxandi. Þá sagði hann að oftar en ekki hafi virðingarvandi Alþingis verið helsta umræðuefnið.
Ólafur sagðist vilja bjóða fram liðsinni sitt til þeirrar vinnu að auka virðingu og álit Alþingis. Þá sagði hann að vegurinn til aukinnar virðingar væri meðal annars varðaður hófsemi í vali á verkefnum. Ekki væri gott að þingið færðist of mikið í fang. Það væri ávísun á aukin átök eins og síðasta vor.
Þá lagði hann áherslu á mikilvægi þess að meta ólík sjónarmið og að átökum yrði að stilla í hóf ef tryggja ætti varanlegan árangur við að endurheimta virðingu Alþingis. Sagði hann það skyldu sína og annarra sem kjörnir væru til ábyrgðar að taka höndum saman í þeim efnum.