Fjárlagafrumvarpið færir reykingamönnum og neftóbaksmönnum engin sérstök gleðitíðindi því að tóbaksgjald verður hækkað um 15% umfram verðlag og gjald á neftóbak verður tvöfaldað.
Neftóbaksgjald var hækkað á þessu ári, en Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra segir að neysla á því hafi ekki dregist saman við það. Nú hafi verið ákveðið að tvöfalda gjaldið og sagðist hún vonast eftir að það yrði til þess að það dragi úr neftóbaksnotkun. Það væri óhollt að taka í nefið og í vörina. Hækkun á tóbaksgjaldi á að skila ríkissjóði samtals einum milljarði í auknar tekjur á næsta ári.
Áfengissala dróst saman á árunum 2009-2011, en í forsendum fjárlaga er gert ráð fyrir lítilsháttar aukningu á næsta ári.
Oddný sagði að fjármálaráðuneytið áformaði að gera breytingar á vörugjöldum, m.a. í þeim tilgangi að stýra neyslu fólks í hollari matvörur. Hún ræddi ekki um þessar breytingar í smáatriðum, en sagði að vörugjöld á nokkrum hollum vörum myndi lækka, en gjöld á öðrum óhollari myndi hækka. Samtals er gert ráð fyrir að þessi breyting auki tekjur ríkissjóðs um 800 milljónir á næsta ári.