Uppskeruhátíð Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka var haldin í útibúinu á Kirkjusandi í gær. Í ár söfnuðust tæpar 46 milljónir króna til handa 130 góðgerðarfélögum. Þetta er met í áheitsöfnun en um 3.400 hlauparar hlupu til góðs. Kári Steinn Karlsson, maraþonhlaupari, afhenti viðurkenningar til þeirra sem söfnuðu mestum áheitum.
Sá einstaklingur sem safnaði mestu var Viktor Snær Sigurðsson en hann hljóp líkt og síðustu tvö ár fyrir systur sína og AHC samtökin. Hann safnaði rúmum 1,6 milljónum króna en aldrei áður hefur einstaklingur safnað jafn miklu í áheitasöfnuninni.
Þá safnaði Bjarný Þorvarðardóttir 1,3 milljónum króna til handa Mænuskaðastofnun Íslands.
Að lokum fékk Ína Ólöf Sigurðardóttir viðurkenningu fyrir að hafa safnað 1,2 milljónum króna og einnig fyrir að hafa fengið flest áheit eða 322 talsins. Ína hljóp fyrir Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, og tileinkaði Árna Sigurðssyni, eiginmanni sínum, hlaupið en hann hefur barist við heilaæxli síðustu 2 ár.
Árni hélt einnig ræðu þar sem hann fór yfir sögu sína og lýsti því hvaða áhrif veikindin hafa haft á líf hans og fjölskyldunnar. Hann þakkaði fjölskyldu og vinum fyrir stuðninginn en þau tóku sig saman og mynduðu heilt hlaupalið sem hljóp undir kjörorðunum Áfram Árni – Við berjumst með þér, segir í tilkynningu frá Íslandsbanka.
Að lokum fór Stefán Eiríksson, lögreglustjóri og stjórnarmaður í Krabbameinsfélagi Íslands, nokkrum orðum um félagið og söfnunina í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Krabbameinsfélagið hefur hvatt þá hlaupara sem hlaupa fyrir félagið dyggilega og hefur það skilað sér í áheitasöfnuninni. Stefán talaði einnig um þá miklu stemmingu sem myndast jafnan á deginum sjálfum, bæði meðal hlaupara og þeirra sem hvetja þá áfram.
Í áheitaskýrslu Reykjavíkurmaraþonsins kemur fram að Kraftur fékk mestu áheitin eða rúma 3,1 milljón króna, Krabbameinsfélagið fékk tæpar 3 milljónir og Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna tæpar 2,3 milljónir króna. Áheitaskýrslan er nú aðgengileg hér.