Áfangasigur vannst í dag í máli íslensku hjónanna og dætra þeirra í Kólumbíu sem ekki hefur verið hleypt úr landinu í 9 mánuði eftir ættleiðingu. Dómari á æðra dómstigi af tveimur innan héraðsins sneri fyrri dómi sem hafði fallið og sendi málið til baka á neðra dómstigið.
Á facebook-síðu fjölskyldunnar kemur fram að þau gleðjist mjög yfir þessum áfanga en sigurinn er þó ekki í höfn því sami dómari og dæmdi gegn þeim áður þarf nú að endurskoða málið og hjónin, þau Friðrik Kristinsson og Bjarnhildur Hrönn Níelsdóttir, telja hann ekki hlutlausan í nálgun sinni. Í dóminum stendur að hann hafi 10 daga til að endurskoða málið, en þau hjónin segjast óttast að hann muni draga það.
Eins og áður hefur verið sagt frá á mbl.is fóru hjónin Friðrik Kristinsson og Bjarnhildur Hrönn Níelsdóttir út hinn 16. desember í fyrra og væntu þess að geta farið heim með ættleiddar dætur sínar að 6 viknum liðnum eins og vaninn er. Í millitíðinni snerist kólumbískum yfirvöldum hugur og meinuðu þeim að yfirgefa landið með börnin.
Dómsstigin í Kólumbíu eru mörg og málið því nokkuð flókið en þeim hjónum var umhugað um að halda málinu innan héraðsins, því fari það fyrir hæstarétt yrðu stelpurnar tvær, þær Helga Karólína og Birna Salóme, líklega teknar af þeim á meðan. Fjölskyldan fór og hitti dómarann á efra dómstigi héraðsins þann 16. ágúst og gekk sá fundur vel að sögn hjónanna. Dómarinn furðaði sig þá m.a. á því að geta ekki talað spænsku við systurnar, en þær hafa að sögn Bjarnhildar og Friðriks neitað að tala spænsku í 6 mánuði og vilja bara tala íslensku.
Í dag dæmdi svo dómarinn á efra dómstigi fjölskyldunni í vil og sendi málið aftur á neðra dómstigið. Dómurinn er að sögn hjónanna 37 blaðsíður og er fyrri dómur þar gagnrýndur harðlega. Tekið er tekið fram þar að stelpurnar séu börn þeirra hjóna og að enginn annar geri tilkall til þeirra. „Við vonum að við komumst fljótlega heim, ef allt gengur vel þá ætti það ekki að taka lengri tíma en einn mánuð að klára málið," segir á facebook-síðu Bjarnhildar og Friðriks.