Hvetja til mótmæla við Austurvöll

Frá mótmælum á Austurvelli í fyrra.
Frá mótmælum á Austurvelli í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Hópur sem kallar sig „Tunnurnar“ hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fólk er hvatt til að mæta niður á Austurvöll í kvöld og mótmæla þegar forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína.

Í tilkynningunni er fólk hvatt til að mæta með hávaðatól eins og trommur, lúðra, dómaraflautur, brunaboða o.fl. um kl. 19:30 í kvöld.

„Tunnurnar vilja tryggja það að hvorki forsætisráðherra né aðrir sem taka til máls þetta kvöld geti hælt sér af afrekum sínum fyrir heimilin með vísun til þagnarinnar á Austurvelli. Þvert á móti  vilja þær að hávaðinn úti fyrir minni alþingismenn á síversandi afkomu heimilanna og lakari lífskjör almennings í landinu. Þess vegna hvetja þær alla til að mæta niður á Austurvöll með kröfuspjöld og öfluga hljóðgjafa og krefjast þess að staðið verði við kosningaloforðin sem snúa að heimilunum án frekari tafa!

Tunnurnar hafa sent þingmönnum eitt bréf á dag frá því á mánudaginn þar sem þær minna þingmenn á hvernig heimilin í landinu hafa stöðugt verið látin sitja á hakanum. Í bréfum sínum hafa þær komið því að með ýmsum hætti hve þeim svíður fyrir hönd heimilanna og almennings sem hefur þurft að bera afleiðingar efnahagshrunsins, sem varð hér haustið 2008, af fullum þunga á meðan gerendum þess hefur verið hossað. Þær hafa líka boðist til að koma á fund forsætisráðherra og/eða ríkisstjórnarinnar í þeim tilgangi að fara yfir hugmyndir sínar að verkefnum sem þær telja bráðnauðsynlegastar til leiðréttingar lífskjörum almennings,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert