Það varð norðlenskri sauðkind til lífs að fæturnir á henni stóðu upp úr snjónum, þar sem hún lá afvelta. „Hún hafði væntanlega legið afvelta í snjóskaflinum í tvo sólarhringa, en var lifandi blessunin. Hún var nokkuð framlág eftir að við mokuðum hana upp, en eftir nokkrar mínútur rétti hún úr sér og gekk upp á veginn,“ segir Gaukur Hjartarson á Húsavík, sem var á ferð á Reykjaheiði í dag, en þar hefur fjár verið leitað í allan dag.
„Hún var þarna á kafi í snjónum og var svo heppin að stinga fótunum upp úr, það varð henni til bjargar, segir Gaukur
Gaukur, sem er skipulags- og byggingafulltrúi Norðurþings, fór upp á Reykjaheiðina í dag til að fylgjast með björgunaraðgerðum og til að huga að landgræðslugirðingum í eigu Norðurþings. „Þær hafa lagst niður út af snjóþunganum og eru illa farnar,“ segir Gaukur.