Skera klakann af fénu

„Við reynum að skera mesta klakann af kindunum svo þær geti komist um og auðveldara sé að reka þær,“ segir Elías Frímann Elvarsson björgunarsveitarmaður, sem er að grafa fé úr fönn við Gæsafjöll á Þeistareykjasvæðinu.

Elvar er einn fjölmargra björgunarsveitarmanna sem vinna að því að bjarga fé í Þingeyjarsýslu. Á Þeistareykjasvæðinu og Reykjaheiði eru um 6.000 kindur. Einnig er verið að leita að fé í Vaðlaheiði, Flateyjardal og Bárðardal. Um 4-5000 fjár eru á því svæði, flest á Flateyjardal.

Elías sagði að allt fé sem hann hefði fundið í morgun hefði verið á lífi og í þokkalegu ástandi. Hann sagði að lögð væri áhersla á að finna það fé sem væri grafið í fönn og koma því á fætur. Fé sem ekki gæti gengið væri sett á vagna. Reynt yrði í framhaldinu að smala þeim kindum sem búið væri að finna.

Gott veður á svæðinu

Elías sagði að veðrið væri mjög gott í dag. Það væri hins vegar ekki mjög auðvelt að finna fé sem grafið væri í fönn. Oftast nær væru þó einhver ummerki sem byggja mætti á við leitina.

„Það er ótrúlega mikill snjór hérna. Ég hef í mörg ár farið á vélsleða á þessu svæði og ég hef sjaldan átt jafnauðvelt með að komast um það. Það sýnir hvað það er mikill snjór hérna.“

Elías sagði að menn þyrftu hins vegar að fara varlega því það væri mikið um sprungur og gjótur á svæðinu. „Þetta er hættulegt svæði og við þurfum að treysta á þekkingu heimamanna til að falla ekki ofan í gjótur. Við förum bara fetið því það getur verið holrúm undir þó að það sýnist vera snjór yfir öllu.“

Elías sagði að kindurnar gætu verið í þessum sprungum og gjótum og það væri því mikið verkefni framundan að leita á svæðinu. Svæðið væri gríðarlega stórt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert