Meðal þess sem Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, lagði áherslu á í ræðu sinni í kjölfar stefnuræðu forsætisráðherra var að bankahrunið haustið 2008 hefði ekki verið alslæmt. Hún sagði þjóðina þekkja vel þær hörmungar sem hrunið hefði valdið en hún vildi hins vegar tala um það jákvæða sem það hefði haft í för með sér.
Margrét sagði að bankahrunið hefði þannig vakið sofandi þjóð sem flotið hefði sofandi að feigðarósi. Venjulegt fólk hefði farið að láta sig stjórnmál varða að meira marki en einungis að mæta á kjörstað á fjögurra ára fresti. Hrunið hefði ennfremur leitt til þess að fólk vissi betur hvernig haldið hefði verið á málum.
Hún sagði eina af kröfunum eftir bankahrunið hafa verið að þjóðin skrifaði sína eigin stjórnarskrá. Það hefði meðal annars verið ein af hennar eigin kröfum. Nú væri sú vinna að skila árangri. Kosið yrði um drög að nýrri stjórnarskrá í lok október og þá fengi þjóðin að svara því á hvaða grunni hún vildi að þjóðfélagið hvíldi.
Margrét sagði það því miður ekki vera sjálfgefið að allri þjóðinni væri boðið að segja skoðun sína fyrirhuguðum breytingum á stjórnarskrá. Það væri heldur ekki sjálfgefið að löggjafinn gengist við vanhæfni sinni til þess að semja lög um stjórnskipan ríkisins og fæli þess í stað þjóðkjörnu ráði að semja frumvarp.
Hún sagði þjóðina þannig hafa vaknað af værum blundi og áttað sig á því að í því að vera borgari fælist ekki einungis réttindi heldur einnig skyldur. Meðal annars til þess að veita stjórnvöldum aðhald og vísa þeim veginn. Þjóðinni mætti aldrei vera aftur sama um það hvernig haldið væri á málum og láta stjórnvöld komast upp með að ljúga að sér.