Heildarkostnaðurinn við viðgerðir á raforkulínum í kjölfar haustlægðarinnar sem gekk yfir landið á sunnudag og mánudag gæti numið allt að 300 milljónum króna. Hátt í hundrað manns starfa nú við viðgerðir á þeim á Norðausturlandi.
„Ef maður tekur til kostnaðinn við endanlega lagfæringu myndi ég skjóta á að þetta væru 150-200 milljónir króna. En það er ekki farið að spá í það, menn einbeita sér bara að því að koma rafmagni á,“ segir Örlygur Jónasson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá RARIK.
Allt að 150 raflínustaurar í eigu RARIK brotnuðu undan veðri og þyngslum á raflínum vegna ísingar. Um 40-50 manns vinna að viðgerð á vegum fyrirtækisins. Í flestum tilfellum er hins vegar um bráðabrigðaviðgerðir að ræða og verður nóg að gera hjá starfsmönnum RARIK við fullnaðarviðgerðir á næstunni.
Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets, sagði í gær að áætlað beint tjón fyrirtækisins vegna skemmda næmi 80-100 milljónum króna. Þá væri ótalinn olíukostnaður við vararafstöðvarnar. Rúmlega fjörutíu starfsmenn vinna að viðgerðum á flutningslínunum.
Dísilvélar hafa séð íbúum á norðausturhorni landsins fyrir rafmagni á meðan flutningslína Landsnets frá Laxá til Kópaskers hefur verið úti, þar á meðal á Raufarhöfn, Kópaskeri, Þórshöfn, Bakkafirði, Kelduhverfi og nærsveitum. Tveimur færanlegum varavélum var bætt þar við á þriðjudag. Rafmagn var skammtað þar á meðan.