Hörð átök urðu á fundi atvinnuveganefndar Alþingis í morgun. Ólína Þorvarðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Þór Saari létu bóka mótmæli við vinnu starfshóps sem unnið hefur að tillögur að breytingum á fiskveiðifrumvarpi Steingríms J. Sigfússonar.
Ólína segir frá fundi atvinnuveganefndar á bloggi sínu í morgun. Á dagskrá fundarins var greinargerð fjögurra þingmanna sem hafa kallað sig „trúnaðarmannahóp stjórnmálaflokkanna“ um tillögur að breytingum á fiskveiðifrumvarpi Steingríms J. Sigfússonar. Hópurinn samanstendur af þingmönnunum Kristjáni Möller, Birni Val Gíslasyni, Einari K Guðfinnssyni og Sigurði Inga Jóhannssyni. Upphaflega mun Þór Saari hafa átt að vera hluti af hópnum, samkvæmt einhverju samkomulagi sem gert var um þinglokin í vor, en hann var aldrei boðaður á fundi eða hafður með í vinnunni, að því er segir í blogg-færslu Ólínu.
Áður en yfir lauk höfðu þrjár bókanir verið lagðar fram á fundinum í morgun þar sem tildrög hópsins og vinnuaðferðir voru gagnrýndar, sem og þau efnisatriði sem hópurinn hefur unnið út frá.
Í bókun Ólínu segir: „Sá hópur fjögurra þingmanna sem hér leggur fram greinargerð sína hefur ekki hlotið umboð atvinnuveganefndar Alþingis né heldur þingflokka stjórnarflokkana til sinna starfa. Hópurinn er sjálfskipaður hluti nefndarmanna í atvinnuveganefnd sem fengið hefur samþykki forystumanna ríkisstjórnarinnar til þess að leita niðurstöðu sín á milli um fiskveiðistjórnunarfrumvarp atvinnuvegaráðherra sem sátt geti náðst um.
Greinargerð sú sem hér hefur verið kynnt atvinnuveganefnd hefur því ekkert þinglegt gildi. Ekki hefur náðst full sátt innan hópsins um þau atriði sem lagt var upp með, og ljóst er að um þau efnisatriði mun seint nást sátt í atvinnuveganefndinni, hvað þá þinginu sjálfu.
Þær hugmyndir sem kynntar hafa verið um að „leggja til hliðar ágreiningsefni“ þau sem risið hafa vegna fyrirliggjandi frumvarps, geta ekki orðið grunnur að neins konar sátt um mál þetta, þó að þeir fjórir þingmenn sem um hafa vélað, geti komið sér saman um þau flest.
Aldrei getur heldur orðið sátt um 20 ára forgangsúthlutun 95% aflaheimilda til núverandi kvótahafa án þess að á móti tímabundnum nýtingarleyfum komi öflugur og vaxandi leigumarkaður, þar sem menn geta á jafnræðisgrundvelli gert tilboð í og leigt til sín aflaheimildir. Hugmyndir innan fjórmenningahópsins um að festa hluta 2 í hlutdeild og takmarka vaxtarmöguleika leigupottsins við 20 þús tonn – í stað þess að miða við það magn sem upphafsstöðu – eru óásættanlegar.
Óásættanlegt er að í uppsjávar- og úthafsveiðum deilistofna verði komið á samskonar gjafakvótakerfi og því sem viðgengist hefur í botnfiskveiðum, eins og tillögur hópsins gera ráð fyrir.
Verði þær breytingar á fiskveiðistjórnunarfrumvarpinu sem fjórmenningarnir hafa drepið á er ljóst að upphaflegt markmið með frumvarpinu — um jafnræði, atvinnufrelsi og nýliðunar möguleika – yrði að engu. Væri þá verr af stað farið en heima setið með mál þetta í heild sinni.
Ég lýsi mig því mótfallna og um leið óbundna af þeim hugmyndum sem hér koma fram.“