Búið er að staðsetja bilunina í öðrum af tveimur rafstrengjum sem sjá Eyjamönnum fyrir raforku. Strengurinn bilaði í gær en óttast var að bilunin væri í sjó, þannig að viðgerð yrði erfið. Nú er hins vegar komið í ljós að bilunin er 2-300 metra frá sjávarmáli, inni í landi, þannig að viðgerð verður mun auðveldari en ef bilunin hefði verið í sjó. Þetta segir Guðlaugur Sigurgeirsson hjá Landsneti í frétt á vef Eyjafrétta.
„Reyndar er aldrei hægt að staðsetja bilun 100% nema með því að grafa niður á hana og nú er unnið að því. En það eru allar líkur á því að bilunin sé þarna. Þarna eru samskeyti strengsins sem fer í sjó og þess sem er í landi og viðbragðsáætlun um viðgerð er komin í gang. Við fáum væntanlega tvo danska sérfræðinga til landsins á sunnudaginn en fram að þeim tíma verður unnið að undirbúningi að viðgerðinni. Meðal þess sem þarf að gera er að grafa niður á strenginn, byggja yfir hann skýli og setja dælur til að dæla sjó í burtu frá honum.“