Björn Valur Gíslason verður formaður fjárlaganefndar í stað Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur. Þetta kom fram við upphaf þingfundar í morgun. Björn Valur hefur verið varaformaður nefndarinnar frá árinu 2009.
Samfylkingin og VG gera talsverðar breytingar á skipan í þingnefndar. VG missir annan fulltrúa sinn í fjárlaganefnd en Samfylkingin fær fjóra menn. Sigríður Ingibjörg hverfur úr fjárlaganefnd, en nýir menn í nefndina eru Lúðvík Geirsson og Valgerður Bjarnadóttir. Fyrir eru í nefndinni Björgvin G. Sigurðsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson.
Þá gerði Sjálfstæðisflokkurinn þá breytingu að Ragnheiður Ríkharðsdóttir kemur inn í nefndina í stað Illuga Gunnarssonar.
Sigríður Ingibjörg verður nú formaður velferðarnefndar í stað Álfheiðar Ingadóttur, sem í gær var kjörin formaður þingflokks VG í stað Björns Vals.