Borga 370 milljarða í vexti

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti á það í fjárlagaumræðu á Alþingi í dag, að ríkissjóður þyrfti að greiða 370 milljarða í vexti á næstu fjórum árum.

Ásbjörn benti á að í sögulegu samhengi væru vextir lágir núna um stundir og ekki víst að það ástand myndi vara um alla framtíð. Gjaldeyrishöftin gerðu það að verkum að ávöxtunarkrafa af ríkisskuldabréfum væri óeðlilega lág.

Ásbjörn sagði ekki vilja gera lítið úr því að hér hefði orðið efnahagshrun. Hann sagði þó athyglisvert að samdrátturinn hefði ekki orðið eins mikill og kæmi fram í efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Samkvæmt henni var reiknað með að samdrátturinn á árinu 2009 yrði 8,4% en samdrátturinn varð 6,4%. Sama gerðist á árinu 2010, en þá var í áætlun AGS gert ráð fyrir 4% samdrætti, en hann varð 1,9%.

„Það sem er athyglisvert við þetta er að áætlunin gerði ráð fyrir fyrir að hagvöxturinn á árinu 2012 yrði 4,9% en niðurstaðan er 2,7-2,8%. Við sjáum alveg hvað er að gerast. Efnahagsáfallið var sem betur fer minna og það er til komið vegna sterkrar stöðu útflutningsgreinanna og vegna þess að innviðir samfélagsins voru sterkari en reiknað var með. Batinn er hins vegar miklu hægri og það er hið alvarlega mál. Þar hefur ríkisstjórnin ekki staðið sig,“ sagði Ásbjörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert